MamaMia

föstudagur, febrúar 28, 2003

Jæja komiði sæl.
Er þá ekki bara komin föstudagur og þetta líka skrítna veður úti. Það er eins og í útlöndum. Þegar maður situr inn fær maður á tilfinninguna að það sé hátt í 40 stiga hiti úti og mikill raki og mengun. En það er nú ekki nema nokkrar gráður í hita, en það er mikið mistur. Einkennilegt veður miðað við árstíma.
Þetta er annars búið að vera frekar ómerkileg vika, ekkert sérstaklega skemmtileg þannig, nema það jú að tengdapabbi átti afmæli síðastliðinn þriðjudag. Við erum einmitt að fara út eftir á morgun (út eftir þýðir sem sagt til Ólafsfjarðar, en þaðan er Guðmundur minn!!) og ætla þeir bræður, Guðmundur og Elís eitthvað að hjálpa föður sínum við virkjunarmálin, en þannig er að tengdaforeldrar mínir eru að gera virkjun í Burstabrekkudal. Ég ætla hins vegar að dúlla mér eitthvað og hjálpa tengdamömmu kannski ef hún þiggur það.
Annars er maður að fara að hugsa um að koma sér í fílinginn, skemmtilegt kvöld framundan þar sem við Guðmundur erum í spilaklúbb ásamt Auði & Óskari, Margrét & Klemenz, Steina & Ingu og Maju (þegar hún er á landinu, tíhí). Það er alltaf gaman í kríngum þennan hóp og ekki við öðru að búast í kvöld annað en að það verði gaman.

Ég tók reyndar afar erfiða ákvörðun í gær. Ég er samt sem áður enn í vafa um að ég hafi valið rétt, en það á eftir að koma í ljós. Ég legg traust mitt algjörlega á það að löng og hingað til traust vináttusambönd standist mikið og erfitt álag. Ég hef ekki alltaf átt í lukku með vináttusambönd mín, en þessi gömlu og góðu hafa staðist tímans tönn og þeir vinir mínir verið mér trúir sem ég hef mest þurft á að halda í gegnum lífið. Ég óska þess að svo verði áfram....
Bið að heilsa ykkur í bili..
Bið að heilsa ykkur í bili.

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Heil og sæl.
Ég er í tíma, ákveðinn áfangi sem á að æfa okkur kennaraefnin í upplýsinga og tæknimennt í grunnskólum. Þetta er vita vonlaust að ætla að reyna að halda athyglinni eftir klukkan fjögur á daginn. Ég veit að ég verð orðin geðveik hérna eftir klukkutíma, hvað þá eftir tvo klukkutíma!!!!!!!
Nú er verið að ræða um mismun drengja og stúlkna á tölvunotkun, hann virðist vera einhver, stelpur séu ragari við að prófa sig áfram.
Jæja verð að fara að fylgjast með, hehehe...........

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Góðan dag.

Spáiði aðeins í þessu, það er 8 stiga hiti úti, þetta er náttúrulega bara algjört bull. Já, ég er sem sagt komin heim aftur úr þessari mögnuðu bústaðaferð. Við vorum með rokið í fanginu nánast alla leiðina suður á föstudaginn, og umferðin maður, ég var nánast að verða blind af öllum þessum ljósum. Þegar komið var upp í Húsafell, eftir að hafa villst í húsaþyrpingunni og fá hjálp til að rata að bústaðnum með því að vera sótt og villast svo aftur...þá fengum við þær óvæntu fréttir að frændi Ellu Möggu og gamall vinur minn og skólabróðir ætlaði einnig að koma með kærustuna og dóttur sína. Það var því drifið í að hita upp í grillinu og potturinn undirbúin, þrátt fyrir rokið og fyrsta stig rigningarinnar. Svo komu Benni og Co. og það var alveg óskaplega gaman að sjá þau, en við Benni höfum ekki hist síðan að dóttir hans var rétt um 1 árs, en hún er að fara í skóla í haust. Það var gaman að ræða um gamlar minningar og alltaf gott að vita að maður hafi reynst vinur í raun og haft jákvæð áhrif. Grillið var frábært en það var farið að bæta í vindinn og rigningarstig tvö á leiðinni. Við létum það ekki á okkur fá og fram eftir nóttu var allt milli himins og jarðar rætt, pólitík, húsnæðismál og svo um miðja nótt var farið í pottinn í úrhellisrigningu og roki. Gaman að því...
Á laugardagsfyrripart var skaplegra veður en það stóð ekki lengi, heldur bætti verulega í og í verstu hryðjunum nötraði bústaðurinn og skalf. Þá tók við rigningarstig þrjú!! Ég fór í að elda Chineese um kvöldið, svaka gott, og svo var fylgst með Júróvísion.
Þar sem ég þykist hafa dágott vit á tónlist þá ætla ég aðeins að tuða um þessa keppni hér á mínu bloggi. Það var mjög gaman að það skyldi vera haldin aftur svona keppni, hún er skemmtileg búbót við íslenskt tónlistarlíf og á fullan rétt á sér. Það sögðu þó margir að um leið og það fréttist að Birgitta Haukdal ætti að syngja eitt laganna, að hún myndi þá vinna, bara að því að hún er hún. Því er ég svosum sammála að mörgu leyti, en þó ég sé síður en svo aðdáandi hennar, þá segi ég að lagið sem hún söng átti skilið að vinna. Og þá koma rök mín fyrir því, fyrir ykkur vini mína sem eruð verulega hissa á þessum yfirlýsingum mínum. Þannig er að Júróvísion-keppnin er ekki eins og margar aðrar sönglagakeppnir. Henni fylgir ákveðinn standard og það er ekki hægt að senda inn hvaða lag sem er. Lagið þarf fyrst og fremst að vera grípandi og auðvelt að læra það, það eru 50%. Svo eru hin 50% útlitið, og það hefur Birgitta. Hversu ömurlegt sem það virðist, þá er þetta sannleikurinn, því nú er símakostning alfarið og bróðurpartur evrópu mun kjósa eftir útliti flytjenda, þetta er aum staðreynd. Því finnst mér lagið „Segðu mér allt“ fullkomlega rétta lagið, því það er grípandi, maður kann viðlagið eftir að hafa heyrt það einu sinni, og Birgitta er sæt stelpa. Mér fannst líka lag Einars, hljómborðsleikara Í svörtum fötum, sem þau sungu Regína Ósk og bróðir Einars, mjög gott lag. Málið er hins vegar það að þau eru um 200 kíló saman og það er því miður bara ekki að virka. Þetta er að sjálfsögðu illa sagt af mér, mér ferst (ekki er ég 90-60-90), en þetta er enn ein auma staðreyndin um útlit og áhrif þess á fyrstu skoðanir fólks um aðra einstaklinga sem það sér, hittir og/eða kynnist í fyrsta skipti. Hefði þetta hins vegar verið sönglagakeppni einungis til að vera keppni hér heima, þá hefði ég alls ekki valið Segðu mér allt. Þá hefði ég hugað að t.d. fyrra lagi Kalla Olgeirs (fyrsta lagið í keppninni) og laginu sem færeyska söngkonan söng með englarödd sinni.
Hitt sem mig langar aðeins að tala um er framkoma hirðfífls Íslands, Gísla Marteins. Ég hef lengi haldið því fram að þetta sé algjört fífl og leiðindaskarfur, og styrktist enn betur í þessari skoðun minni eftir Júróvisíon. Í fyrsta lagi eru þessi ANDSKOTANS fimmaurabrandarar hans gjörsamlega orðnir langþreyttir en það sem toppaði allt var framkoma hans í garð Hreims. Hreimur er einn af þeim sem eru ekki endilega í uppáhaldi hjá mér, en þegar allt fór í klessu þarna með teypið, þá vorkenndi ég honum hræðilega, því hann var að syngja og væntanlega hefur söngurinn á teypinu ekki átt að vera með. En þegar Gísli segir svona eftir að vera búin að teygja lopann fyrir tæknimennina, hvort hann sé ekki tilbúinn í að hreyfa varirnar aftur, var gjörsamlega óviðeigandi og dónalegt. Mér fannst Hreimur standa sig eins og hetja fyrir það eitt að geta klárað að syngja lagið og muna allan texta. Ég hefði orðið svo reið að ég hefði arkað að Gísla og handrotað fíflið. Svo baðst hann ekki einu sinni afsökunar, þrátt fyrir það að hafa áreiðanlega fengið orð í eyrað fíflið. Ég veit ekki hvað ég á að halda, er hann virkilega svona mikill dóni, eða hjálpaði áfengi eitthvað hér til, hleypti fram duldum dónaskap Gísla Marteins. Ég er yfir mig hneyksluð....
Jæja segjum þetta gott um Júróvisíon og bara gott í bili, varð að fara að pilla mér í tíma.

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Komið þið sæl..
Ég er búin að vera að hugsa aðeins um það sem hún Auður mín var að skrifa um á síðunni sinni, um að hún óski eftir því aðeinhver hlusti á hugmyndir sýnar og hvetji sig áfram, þá helst einn ákveðinn einstaklingur. Þá fór ég að hugsa um mig, hvort ég hefi einhvern til að hlusta á mig og mínar hugmyndir. Já, ég hef fólk í kringum mig til þess. Ég á mann sem er svo yndislegur að nenna að hlusta á mig og hann gefur mér komment á það sem hann telur sig geta kommentað á. En það er ekki alltaf hægt að biðja hann um að hlusta því sumt getur hann ekki sett sig inn í, eins og mörg svona stelpumál, og þá á ég góðar vinkonur sem eru til í að ljá mér eyra. Málið er hins vegar það að stundum eru þeir sem við viljum að hlusti á okkur með ákveðin málefni, hafa ekki alltaf tíma, áhuga eða annað sem hindrar þá í að vera þessir góðu hlustendur sem við „ætlumst til “ að þeir séu!! Þetta getur pirrað mann óendanlega mikið og maður skilur ekki af hverju þetta er svona. En ég er þá bara farin að reyna að gera gott úr þessu og leyta til annarra sem kannski gefa manni ekki þau svör sem mann vantar, en þeir reyna þó alla vega. Það kemur manni þá alla vega eitthvað áleiðis, og maður verður þá bara sjálfur að reyna að fylla inn í eyðurnar, þangað til að sá sem við vildum að hlustaði hefur tíma eða eitthvað svoeliðis. Jæja, þetta var pæling dagsins...

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Jæja jæja, maður er engan vegin að standa sig í stykkinu, skrifar allt of sjaldan, eða hvað? Er ekki enn búin að setja neina „fítusa“ inn á, eins og tölvukarlarnir segja, en ég vona að það komi í síðasta lagi í næstu viku.
Ég var að fá svo skemmtilegar fréttir að ég er bara brosandi hringinn, því ein frænka mín er ófrísk. Mér finnst þetta svo frábært.
Já já, svo erum við Guðmundur að fara í bústað næstu helgi, vinafólk okkar bauð okkur með sér. Ég hlakka mikið til, svona í tilefni Valentínusardagsins og get ekki beðið eftir því að fara að grilla eitthvað gott. Hef ekkert grillað síðan einhvern tíman í haust, því grillið er með einhverjar dillur og lætur illa að stjórn!! Það verður svo einnig heldur betur spilað Catan, en ef maður er ekki húkkt á því spili ja þá veit ég ekki hvað.
Af öðru er nú lítið að frétta, við Guðmundur skruppum aðeins út eftir til tengdó, heimsóttum Arnar frænda Guðmundar og hans fjölskyldu í leiðinni. Tengdó eru ekki alveg að fatta það að eftir 2-3 vikur verða þau komin í sitt eigið íbúðarhús, en þau voru að kaupa sér nú í janúar. Það verður mikill léttir, því það hefur gengið á ýmsu varðandi leiguhúsnæðin síðan þau fluttu úr Burstabrekku niður í bæ fyrir nokkrum árum. Loksins geta þau komið sér og sínu almennilega fyrir og farið að slaka almennilega á.

En mikið djöfull er ég annars orðin dugleg, fer alveg 3-4 sinnum í viku út á Bjarg að lyfta og reyni að hreyfa mig eitthvað alla daga. Ég er orðin svo hörð við sjálfa mig og er alveg hætt að borða neitt eftir kvöldmat og virkilega íhuga hvað ég er að láta ofan í mig. Ég hætti að borða nammi á þrettándadanum og leyfi mér einungis einn bragðaref frá Brynju einu sinni í mánuði. Það gengur bara ljómandi vel. Mér er bara farið að líða strax miklu betur, með aðeins jákvæðara viðhorf gagnvart þessu öllu en oft áður og því gengur bara alveg ágætlega. Ahhh.... þetta var nú ágætt, aðeins og dýrka sjálfa sig, hehehe...
Jæja ætla segja þetta gott í bili, bið að heilsa ykkur ;o)

fimmtudagur, febrúar 06, 2003

Jæja, komst loksins í skólann í morgunn. Þá var það hvorki meira né minna en siðfræði hjá KK, þvílíkt dúndur svona snemma dags. En mér sýnist þetta ætla að verða skemmtilegur áfangi, nú loks þegar hann kemst í gang. Á örugglega eftir að deila með ykkur einhverju úr þessum tímum.
Annars er ég í frekar litlum fíling, hef eiginlega áhyggjur af því að komast ekki í gang í skólanum, er hálfpartin búin að vera í í fríi í janúar, bara í tveimur fögum, því við þurftum að bíða e. að leikskólabrautin kláraði verknám sitt, en þau eru með okkur í hinum þremur fögunum, sem byrjuðu sem sagt loks í þessari viku. En það verður vonandi fljótlega sem maður kemst í gang, fer vonandi að fara að byrja á einhverjum verkefnum í vikunni. (svona ef einhver er að lesa þetta og þekkir mig ekki, þá er ég sko í kennaranámi við Háskólann á Akureyri!). Jæja, ætla segja þetta gott í bili, þarf svo að fara að byðja annað hvort Auði eða hennar elskulega eiginmann að hjálpa mér við að gera eitthvað meira sniðugt með þessa síðu. Hafið það gott landsmenn allir!!!

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Dísús hvað það er leiðinlegt að vera svona uppstoppaður af kvefi. Er enn með hita þannig að ég fór ekki í skólann og hangi því annað hvort fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna. Ég var að glápa á sjónvarpið hérna í morgun, á Opruh, þar sem var svona brúðkaupsþema. Það er greinilega í því sem öðru að Kaninn þarf alltaf að vera svo brjálæðislegur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Við erum að tala um að eitt draumabrúðkaupið snérist að miklu leyti um blómaskreytingar og við erum ekki að tala um eina og eina rós, heldur heilu kílóin af blómum innfluttum frá Hollandi. Þetta var svo mikið að þetta var engan vegin fallegt, heldur bara yfirþyrmandi. En svo var eitt ferlega fyndið. Það er svo mikið inn núna að gefa gestunum gjafir til að þakka þeim fyrir komuna, og söngkonan í sænsku hljómsveitinni...oh ég man ekki hvað hljómsveitin heitir (heili enn fullur af hori)...jæja allavega þá gifti hún sig ekki fyrir svo margt löngu og þau hjónin gáfu öllum kleinuhringi, fallega innpakkaða, svona til að narta í á leiðinni heim, mér fannst þetta frábær hugmynd.
Ok nú er ég hætt að geta andað, verð að fara að snýta mér og bjarga mér með nefspreyi.....

mánudagur, febrúar 03, 2003

Er maður að verða húkkt eða??????
Sko.. já.. svo ég haldi áfram með Reykjavíkurferðina þá gisti ég hjá mágkonu minni og fjölskyldu hennar, Arna, Hálfdán og dóttir þeirra Ragnheiður Kara. Við erum að tala um það að ég hef ekki séð þau síðan í haust þegar þau komu til okkar í bústað í byrjun október. Samt sem áður að um kvöldið sem ég kom suður (þriðjudagskvöldið) til að henda töskunum inn, segja hæ og fá lykla, þá hoppaði litla skottið hún Ragga Kara beint í fangið á mér. Ef þetta bræðir mann ekki þá veit ég ekki hvað, dísús, þetta var alveg krúttlegast. Hún sagði samt ekki mikið, var að þykjast vera pínu feimin. En svo hitti ég hana ekki meira í ferðinni því maður var á ferðinni allan tíman og ég rétt sá Örnu og Dána aðeins meira. Það verður vonandi lengri viðdvöl næst og ekki jafn umfangsmikil.
En viljiði aðeins spá í þessu...Ragnheiður Kara verður 4 ára á þessu ári!!! Er þetta alveg eðlilegur hraði á tímanum eða?? Málið er nefninlega að við Guðmundur minn eigum svolítið í henni því við fluttum suður haustið sem hún fæddist og vorum hálfgerðir heimalingar hjá litlu fjölskyldunni, pössuðum hana og svona, og teljum því nokkrar prósentur til okkar. En ég er samt ekki alveg að fatta það að hún sé að verða 4 ára í sumar og að við Guðmundur séum búin að vera saman í rúm 5 ár....já 5 ár!! Rugl, bull og vitleysa.

Jæja, þá er maður að reyna að setja sig inn í þetta blogg dæmi, en það er hægara sagt en gert þegar heilinn er fullur af hori!!! Það er svona að vera ramba til Reykjavíkur eins og blábjáni. En reyndar var nú bara nokkuð gaman. Ég fór og marga vini mína, fór m.a. á þriðjudagskvöldið með Jósu vinkonu á leiksýningu Nemendaleikhússins, á verkið Tattú og svo bauð hún mér í mat í mötuneyti skólans í hádeginu á fimmtudaginn (Jósa vinkona er sko á 2.ári í leiklistarskólanum) og það var mjög skemmtilegt að hitta marga af tilvonandi leikhetjum þjóðarinnar. Svo hitti ég Söru vinkonu, við Jósa skruppum í heimsókn til hennar í Hafnarfjörðinn á miðvikudagskvöldið og það var æðislegt að vera aftur svona 3 saman, það er langt síðan síðast. Sara er einmitt í áhugaleikfélagi Hafnarfjarðar sem er að sýna leikritið Salka miðill, eða mig minnir að það heiti það, rosa fjör. Svo hitti ég Ellu Möggu og við fórum að sinna einu áhugamáli okkar, sem er að heimsækja svona búðir eins og Raftækjaverslun Íslands, Ikea og svoleiðis... en Ella og unnusti hennar Egill eru að fara að flytja í sína fyrstu íbúð (þá fystu sem þau kaupa) næsta haust og eru því núna á fullu að reyna að innrétta hana í samráði við verktakana. En hápunktur ferðarinnar var að sjálfsögðu að fara að hlusta á bróður sinn spila einleiksverk með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hann ásamt 2 öðrum nemendum úr Tónlistarskóla Reykjavíkur og 1 úr Listaháskóla Íslands spiluðu síðastliðið fimmtudagskvöld sín einleiksverk með Sinfóníunni. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt kvöld og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur, enda ekki við örðu að búast eftir alla þessa vinnu sem þau hafa lagt í að verða svona góð eins og þau eru. Ég náttúrulega grenjaði fyrstu mínúturnar sem Villi bróðir spilaði, alveg að springa úr stolti, en tók mig svo saman í andlitinu og naut hverrar mínútu. Þvílíkt og annað eins, þessir krakkar eru alveg ótrúlega færir spilarar og það var hrein unun að hlusta á þau. Jæja, ætli ég verði ekki að fara að snýta mér, er gjörsamlega að kafna!!!!!!!