MamaMia

mánudagur, mars 31, 2003

er hann ekki sætastur eða???

Jæja það er mánudagur og ég og Elsa búnar að vera þvílíkt duglegar að læra, þannig að skólaleiðisyfirlýsing mín síðasta laugardag, þ.e. að leiðinn væri horfinn, virðist ætla að standa. Gaman að því!!!

Annars er ég að fara suður næstu helgi, að hlusta á einleikaratónleika Villa bróður. Ég hlakka auðvitað mikið til þess og var að hjálpa mömmu við að baka aðeins í gær til að hafa í veislunni eftir tónleikana.

Við skruppum svo úteftir eftir hádegi til að heilsa upp á tengdó. Það var mjög skrítið að mæta ekki Birnu og mjög tómlegt. Hennar er sárt saknað. Annars eru tengdaforeldrar mínir búnir að koma sér ágætlega fyrir og líður mjög vel í nýja húsinu. Við Guðmundur og systkyni hans erum líka óskaplega stolt af þeim þessa dagana, því þau eru bæði hætt að reykja og gengur það bara ágætlega.

Það var rosa gaman að fá Auði og Óskar í mat, við buðum þeim upp á grillað lambalæri, kartöflugratín og bakaða heila rauðlauka. Mér fannst þetta rosa gott og þau sögðu að þetta hefði verið gott, þannig að þetta virðist hafa virkað. Við horfðum svo á söngvakeppnina og skemmtum okkur vel, gátum hlegið yfir nokkrum og bölvað kynnunum, sem voru náttúrulega alveg glötuðust. Mér fannst strákarnir rúlla þessari keppni upp, og fannst að Stebbi frá Verkmenntaskólanum hefði átt að lenda í verðlaunasæti, ásamt stráknum frá Neskaupstað og svo þeim sem fengu annað og fjórða sæti, strákurinn með rauða hárið. Það hefur náttúrulega spilað inn í úrslitin að lagið sem stelpan sem vann var með nýja útsetningu á laginu sem skólabræður hennar gerðu, en samt... ekki fyrsta sæti, ha?! Svo átti sú sem var í þriðja sæti ekki erindi þangað, þrátt fyrir að hún væri með ágætis rödd, strákarnir voru bara betri að mínu mati.
Jæja best að fara að halda áfram að læra...

laugardagur, mars 29, 2003

Kominn enn einn laugardagurinn, en hann er búinn að vera frábær. Á einum degi hefur skólaleiða mínum verið svipt í burtu og skipt út fyrir sköpunargleði, hrifningu og gleði. Við vorum sem sagt að ljúka einum áfanganum í skólanum í dag sem heitir listir,hreyfing og félagsmál og við höfum í þeim áfanga verið að nálgast listformið út frá m.a. myndlist, hreyfingu og tónlist. Þetta er búinn að vera frábær áfangi og lauk í dag með sameiginlegri sýningu okkar í bekknum. Sýningin tókst með afbrigðum vel og allir svo inn í sköpunarferlinu og að gera sitt albesta. Enda sýndi það sig, sýningin tókst frábærlega og við fengum hæstu einkunn fyrir. Ég er svo glöð og ánægð að nú hef ég fíleflst (eða eitthvað svoleiðis) í því að fara með jákvæðu hugarfari í vinnuna við þau verkefni sem eftir eru af þessari önn.
Svo er það söngvakeppni framhaldsskólanna, hlakka mjög mikið til að fylgjast með henni. Verð með matarboð, Auður og Óskar ætla að koma í mat og horfa svo á keppnina með okkur. Svona keppnir finnst mér svo skemmtilegar og hef fylgst með þeim í mörg ár. Ég vona bara að allir hafi það gott það sem eftir er að deginum, ég ætla allavega að skemmta mér vel ;o)
See´ya

miðvikudagur, mars 26, 2003

Nú geri ég bara ekkert annað þessa dagana en að blaðra á msn, það er mjög gaman og alltaf fleiri og fleiri að bætast við listann af þeim sem maður hittir og spjallar við. Ég vil bara endilega fá fleiri inn.
Það er annars nóg að gera og nú er ég að fara að reyna að halda áfram með eitt verkefnið sem klára þarf fyrir næsta þriðjudag.
Heyri í ykkur seinna...

mánudagur, mars 24, 2003

Ohhhh, ég er svo tæknivædd. Er sem sagt komin með hotmail svo ég geti spjallað á msn og er í þessum skrifuðu orðum að spjalla við Maju í Austurríki, þetta er svo skemmtilegt. Er að bíða eftir að fleiri skrái sig inn og fleiri bætist við listann minn.

Annars er maður að átta sig á málunum, að skólinn sé bráðum að verða búin og það styttist í próf. Ég get eiginlega ekki beðið eftir sumrinu, svo ég geti farið í að gera allt það sem mig langar að fara að gera fyrir sjálfa mig og undirbúa frekar framtíð okkar Guðmundar, það er margt að skipuleggja. Það er svo skrítið með það hvað ég er andlaus núna, ég er hreinlega ekki að meika skólann né neitt annað, vill helst bara vera með sjálfri mér og ekki hugsa neitt, eða knúsast með Guðmundi og láta sér líða vel.

Annars kvaddi hún Birna greyið þennan heim aðfaranótt sunnudagsins, en Birna var heimilishundur tengdaforeldra minna í rúm 10 ár og hennar því verulega saknað. Það verður skrítið að fara í heimsókn út eftir og mæta ekki Birnu fyrst af öllum til að sniffa af manni og athuga hvort maður sé ekki með eitthvað gott handa henni.

Svo dreymdi mig hana Söru mína í nótt sem ég sakna svo mikið. Hún var svo glöð og falleg í draumnum og mér leið svo vel að sjá hana. Ég vona að ég geti hitt hana þegar ég fer suður næst.
Jæja, best að halda áfram að læra...

laugardagur, mars 22, 2003

Go´daginn
Var rosa dugleg að læra í dag með Elsu, gerðum alveg helling. Svo fórum við að leika okkur á netinu, og ég ákvað að fá mér hotmail svo ég geti farið að msn-ast... þannig að allir sem ég þekki og eru að msn-ast endilega lofið mér að vera með...nýja meilið mitt er bjarkeysig@hotmail.com... jibbý...

Annars er ég að kafna hérna heima, brjálaðir brennuvargar hérna innar í sveitinni sem eru að menga allt hérna... þetta er alveg rosalegt.

Svo eru það nýjustu og bestu fréttirnar....eins og ég sagði frá um daginn, þá var Villi bróðir úti í Noregi að taka inntökupróf inn í tónlistarháskólann í Bergen og tónlistarháskólann í Osló. Hann fékk strax úti að vita það að hann væri velkominn í skólann í Bergen, og fékk sem sagt inngöngu þar. Nú á föstudaginn fékk hann að vita það að hann ásamt norskri stelpu, komust inn af 22 í skólann í Osló. Hann er svo glaður og við öll, þetta er draumi líkast og við erum hreinlega að springa úr gleði og stolti. Það verður ekki slæmt að heimsækja litla bróður til Oslóar ;o)

föstudagur, mars 21, 2003

Jæja er mætt í skólann, ekki of hress vegna þess að ég var svo innilega ekki vöknuð þegar klukkan hringdi á okkur í morgun, þarf sko alltaf að vera komin til meðvitundar helst nokkrum mínútum klukkan hringir og er það yfirleitt nema í morgun :o(
Best að hætta að velta sér upp úr því.
Það er spilakvöld í kvöld, og því eins gott að fara að setja sig í stellingar, I´m feeling lucky tonight... það er eins gott að ég fari að vinna í Catan, því það er skömmustulegt að segja frá því, en ég hef ekki enn unnið á þessu ári!!! Djö...
Því verða allir að kyrja GO BJARKEY, GO BJARKEY, GO BJARKEY í allan dag...ok?!

miðvikudagur, mars 19, 2003

Búin að vera með hausverk dauðans í ALLAN dag, vaknaði með hann og sennilega fer að sofa í kvöld, enn með hausverk...og já ég er búin að taka verkjatöflur.... og já ég hef líka nokkrum sinnum reynt að eyða hausverk með villtu kynlífi, en ÞVÍ MIÐUR þá virkar það ekki á mig og ég er mjög sár yfir því.
Fór á fund í dag með bekkjarfélögum mínum þar sem við vorum að reyna fyrstu útfærslur á verkefni okkar í áfanga sem heitir listir, hreyfing og félagsmál, og almáttugur... það var ekki auðvelt. Skiptinemarnir okkar komu með þá hugmynd að taka árstíðirnar (sem er þema okkar) og flétta inn í þær viðburði líðandi stundar, og byrja t.d. á hausti og flétta inn í það 11.september... sorry, en ég var ekki að fíla þessa hugmynd, þar sem við erum ekki Bandaríkjamenn og finnst þessi endalausa umfjöllun í fréttum um aðgerðir Bandaríkjamanna ömurleg. Það má vel vera að ég sé í afneitun, og vilji ekki sætta mig við það að hugsanlega sé að brjótast út stríð. En það sem fór með mig í dag, var þetta að við erum íslendingar og við getum ALDREI sett okkur í spor þessara þjóða sem deila og mér finnst það ömurlegt þegar fólk er að lepja upp allan andskotann sem Bandaríkjamenn eru að segja og gera. Mér finnst Bush ekki vera sá leiðtogi sem við eigum að taka til fyrirmyndar og er því MJÖG ósátt við það að á einhverjum fréttamannafundi út í Bandaríkjunum er Ísland talið upp ásamt öðrum þjóðum sem styðji Bandaríkin heils hugar í stefnu þeirra. Æi ég veit það ekki, þetta fer allt saman mjög illa í mig og mér finnst að fólk verði að átta sig á því að við verðum einvhern vegin að vera hlutlaus og standa utan við þetta, því við getum aldrei skilið þessar þjóðir.
Æi ég ætla að hætta þessu röfli og fara að horfa á Friends, ég er hunderfið núna....

þriðjudagur, mars 18, 2003

Jeminn, hvað það er magnað veður. Var gjörsamlega að deyja í skólanum áðan, maður er svo ekki að meika það að sitja inni í svona veðri og hlusta á einhvern fyrirlestur. Ég var í Reykjavík um helgina, í afmæli hjá Örnu mágkonu. Gerði nú samt ekki mikið meira en að hitta þau, Villa og Jósu vinkonu, en þetta var góð helgi. Ég vona nú að ég hitti fleiri næst þegar ég fer suður í byrjun apríl, til að hlusta á einleikaratónleika Villa. Það var náttúrulega brjálað fyndið að sjá bróður sinn í sjónvarpinu og í FRÉTTUM!!!
Ég er með skólaleiða á háu stigi núna og ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera við því, ég nenni engu....
ég verð að heyra í ykkur seinna, Guðmundur minn var að koma inn úr dyrunum og reka á eftir mér, við ætlum nebbninlega að fara að heimsækja tengdó og skoða nýja húsið ;o)
Heyrumst..

mánudagur, mars 10, 2003

Jamm...
Var að lesa bloggið hennar Auðar vinkonu, og ég er bara hrifin. Þetta með að þurfa að finna sig, er að sjálfsögðu SVOOO mikilvægt, og ég er að velta því fyrir mér hvort ég sé alveg með allt mitt á hreinu. Ég þurfti að taka stórar ákvarðanir varðandi líf mitt, nám og starf, hérna fyrir tveimur árum, þegar við Guðmundur ákváðum að flytja aftur norður og fara ekki út í nám. Það var það stærsta námsákvörðunarskref sem ég hef tekið og ég sé það alveg núna að ég valdi rétt. Ég þurfti að viðurkenna að innra með mér býr afar gamaldags og íhaldssöm manneskja og það var gífurlega erfitt að viðurkenna, og enn í dag er ég dálítið feimin við að útskýra það fyrir fólki hvers vegna ég fór ekki út í meira söngnám, þar sem flestir töldu (telja!) að ég ætti að vera. Síðan þá hef ég verið að festa mig betur í sessi í þessu lífi okkar Guðmundar, og það vita það held ég allir sem mig þekkja eða kannast við mig að ég ætla að giftast Guðmundi og sjá að við erum ætluð hvort öðru. Það veit ég vel að er mín stærsta heppni í þessu lífi að hafa kynnst Guðmundi, því betri mann hefði ég ekki getað fundið. Hann kom inn í líf mitt á versta tíma, en sannaði fyrir mér og öðrum að tímasetningin var ekkert svo slæm, heldur hárnákvæm beinskeitt til þess að opna augu mín fyrir jákvæðum hliðum lífsins. Minn draumur er að geta átt gott og heilbrigt líf með honum og eignast með honum falleg börn og gott heimili hér í sveitinni, því ég tel það hafa verið stórkostleg forréttindi fyrir mig að alast upp í sveit, og það vil ég gefa börnunum mínum. Það er því minn stærsti draumur að eignast fjölskyldu og búa á fallegum stað þar sem ég sé mig og fjölskylduna dafna. Þar fyrir neðan koma svo allir mínir draumar um framtíðarstarf. Eins og er þá er ég í kennaradeild Háskólans á Akureyri. Mér líkar það nám mjög vel, það er nokkuð almennt, og mér sýnast margar atvinnuleiðir vera opnar eftir svona nám. Ég er þó hins vegar langt frá því búin að leggja sönginn á hilluna, og er nú í brúðkaupsvinnunni og því um líkt sem er mjög gaman, en ekki nógu krefjandi. Í framtíðinni óska ég þess að hér á norðurlandi muni rísa upp alhliða tónlistarhús, þar sem möguleikar væru á að setja upp óperur og önnur léttari söngverk. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri, að vera á sviði og túlka einhverja persónu sönglega og leiklistarlega í fallegri óperu. Þetta vona ég að eigi eftir að liggja fyrir okkur söngfólkinu hér norðan heiða, því við erum mörg sem erum menntuð hér og viljum búa hér og vinna í okkar listum hér. Þetta er ekki draumur í óráði, því við sjáum það nú bara t.d. fyrir austan á Eiðum, þar hefur Keith Reed sett upp óperur nú í nokkur ár, hvað ætti að standa í vegi fyrir því að gera þetta hér??
Guð...ég trúi því varla að ég hafi skrifað þetta allt saman...ég ætla að drífa mig í að pósta þetta áður en ég hætti við..........EN SVONA ER ÉG, KÆRU VINIR ;o)

fimmtudagur, mars 06, 2003

Blessuð og sæl öll sömul...
Ekki margt að gerast í mínu lífi, aðallega hjá bróður mínum, sem er í þessum skrifuðu orðum lenntur í Bergen (Noregi) til að taka inntökupróf í tónlistarháksólann þar í bæ!!! Takk fyrir, ég væri alveg til í að vera með honum þarna...
Aðfaranótt eignuðust tvær ungar konur sem ég þekki stúlkubörn, önnur er í spilaklúbbnum okkar og hin er með mér í bekk, skemmtileg tilviljun að þær skyldu eignast börnin sömu nótt ;o)

Annars er hinn endinn á pólnum ávallt nálægt, ein systir Stínu ömmu minnar dó sömu nótt. Vertu sæl Sigga mín, ég veit að þinn tími var kominn, blessuð sé minning þín.
Eins og gefur að skilja er fólk ekki með hýrri há hér á heimilinu og ekki hjálpar tíðarfarið til.

Annars er allt ágætt og árshátíðarundibúningurinn í hámarki, en árshátíð Háskólans á Akureyri verður annað kvöld. Það ætti að verða gaman, þrátt fyrir hundleiðilegan kynni (Gísli Marteinn, reyndar bætir Logi þetta upp) og Jóhannes sem hátíðargestur, en þetta verður fjör því við erum búin að ákveða það og bekkurinn minn alveg heitur fyrir því að mæta vel og skemmta sér vel.
Ég segi ykkur svo frá þessu öllu saman hér á blogginu ;o)