Á laugardaginn fórum við stöllur í bæinn, í heimsókn til Ingu frænku Jósu, hitta fjölskyldu hennar og skoða nýja húsið þeirra. Stuttur Nettó-túr og því næst brunað heim og Jósa fór í að undirbúa matinn og eurovision-partýið á meðan ég fór í fjós. Það er nú varla frásögu færandi að við þurftum að kalla til dýralækni, en Pálmi gantaðist svo mikið með það að ég þyrfti að undirbúa mig, því dýralæknirinn væri svona fjallmyndarlegur og ungur maður. Hann sagðist einnig í leiðinni endilega ætla bögga mig eins mikið og hann gæti til að gera mig vandræðalega, en svo rann það upp fyrir honum að andskotinn.... dýralæknirinn gæti haldið að ég væri konan hans því ég hef aldrei hitt þennan mann. Svo kom blessaður maðurinn og ég voða cool á því og bjóst ekki við neinu, en snarroðnaði svo þegar ég barði manninn augum, því hann er svona asskoti myndarlegur, svo myndarlegur að ég var virkilega að spá í að renna heim eftir Jósu, hehehe ;o) En þar sem hann kom svo seint, þá komst ég ekki heim úr fjósi fyrr en á slaginu sjö, og þá renndu gestirnir akkúrat í hlað, Óskar, Gulli vinur hans og Þórdís Ósk. Það var ekki um annað að ræða drífa sig upp til að horfa á keppnina, og gestirnir þurftu bara að þola fjósalyktina... I LOVE IT !!
Keppnin var voða flott, Birgitta og co. stóðu sig ljómandi vel og þau náðu þeim árangri sem ég vonaði að þau næðu, topp tíu. Ég hef nú alveg fylgst með betri keppnum, en það var alveg hægt að hlæja, bæði að keppninni og hneykslan Gulla og Óskars á okkur stelpunum, hehehe....
En svo var nú tekin sú hópákvörðun að ég færi í sturtu og djamminu yrði nú haldið áfram. Við stelpurnar gerðum okkur til, og strákarnir skelltu sér í bæinn til að hella meira í sig og hitta félaga sína. Þegar við gellurnar vorum tilbúnar renndum við í bæinn heim til Óskars. Þar var hlegið ennþá meira, gert mikið grín, sér í lagi að Jósu greyinu. Jósa og einn vinur Óskars voru í hörku samningaviðræðum og brúðkaup senninlega bara í vændum!! Svo skelltu strákarnir sér í Sjallann. Við gellurnar fórum á rúntinn og síðan á Kaffi Amor. Þar var ekki mikið stuð, en Þórdís varð eftir því hún hitti gamla vinkonu sína, en við Jósa fórum á rúntinn. Um það leyti sem við vorum að fara heim, bjölluðu Óskar og Gulli í okkur, og það var bara ákveðið að fara inn í sveit að glápa á DVD, þar sem við Jósa erum nú einar heima ;o)
Þar tók við ennþá meiri hlátur, gert meira grín að Jósu og glápt á skemmtilegar myndir. Við skemmtum okkur það vel að við sáum enga ástæðu til þess að fara að sofa fyrr en seint um síðir, eða ekki fyrr um sex, hálfsjö um morguninn!! Það er nú langt síðan að maður vakti svona lengi og skemmti sér.
Eftir endalausar símhringar í „morgun“ dröttuðumst við Jósa á lappir, en þá voru kapparnir vaknaðir og komnir í DVD-ið. Þá var tekið hraustlega til matar síns og hláturinn ekki skammt undan. Baunasendingar milli Jósu og Gulla orðnar alræmdar og greyið Jósa alveg að missa sig yfir þessum árásum og löngu hætt að geta hlegið að einhverju viti, þar sem Gulli og Óskar gerðu óspart grín að hlátrinum hennar. Við ákváðum að stinga nefjunum aðeins út og sleikja sólina úti á sólpalli, þvílíkt veður, blankalogn og sól. Þá var það DVD aftur!! Þetta var því algjör letidagur og við skutluðum drengjunum ekki í bæinn aftur fyrr en að ganga sex í dag ;o) Það er gaman að þessu. Gaman að eiga skemmtilega vini og þetta var bráðskemmtileg helgi ;o)