MamaMia

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Kæru vinir, skyldfólk og aðrir landsmenn, ég við óska ykkur gleðilegs árs og velfarnaðar á þessu fyrirheitna ári 2004!!!

Það er óhætt að segja að ég hafi verið búin með öll batteríin fyrir jól, meira að segja svo vel að ég komst ekki í síðasta próf ársins og tek það því næsta föstudag. Eins og þið hafið eflaust orðið vör við á bloggi mínu, þá var síðasta haust oft á tíðum ansi erfitt og geðsveiflurnar hingað og þangað. Ég var mjög meðvituð um þessa erfiðu tíma hjá mér og fór því í jólafrí með mikilli tilhlökkun og eftirvæntingu, þar sem ég er mikið jólabarn og jólin mikill hleðslutími fyrir mig. Ég kem því endurnærð úr jólafríi (eftir frábæran mat, konfekt, fjölskyldu- og vinastundir og "spilaæðið" ). Ég get ekki beðið eftir því að takast á við lokaáfanga Háskólans til að ljúka þessu námi af, enda útskrifast ég í vor sem kennari frá kennaradeild Háskólans á Akureyri. Við Guðmundur höfum gengið í gegnum smá ferli í vetur þar sem við og samband okkar hefur verið í ákveðinni naflaskoðun. Það hefur gengið misjafnlega, aðallega hjá mér þar sem ég er svartsýnari en hann og á erfiðara með að slaka á og gefa hlutunum tíma. Það hjálpar heldur ekki að allt of margir aðilar í mínu lífi (aðallega fjölskyldumeðlimir) sjá sig knúna til þess að skipta sér óeðlilega mikið af mínu lífi, með spurningum sem hreinlega, á röngum tíma, koma illa við mann. Auðvitað segir maður svo ekki neitt, heldur reynir að dreifa umræðuefnunum. Ég átti gott samtal við góðan mann rétt fyrir jólin sem hjálpaði mér mikið í þessu og í því að slaka aðeins á, það var einhvern veginn öðruvísi að heyra það frá honum að ég þyrfti að slaka á, heldur en til dæmis frá Guðmundi (eins fáránlegt eins og það er nú!). Það er því það sem er mér efst í huga fyrir nýtt ár; það er að slaka á, nýta tímann betur og gera miklu meira fyrir sjálfa mig heldur en ég hef verið að gera. Það fyndnasta í þessu öllu er að ég get enn undrast á því hvað ég er heppinn og tel mig vera í einu af því ástríkasta, krúttlegasta og heilbrigðasta sambandi sem ég hef séð og kynnst...

Það var voða gott að fá litla bróður sinn heim yfir hátíðirnar og það var rosalega ánægjulegt og gott að spjalla við bróður minn um lífsins mál og sannfærast enn frekar um að maður hafi valið rétt, með því að flytjast aftur norður og taka þá stefnu í lífinu sem við Guðmundur erum á. Að heyra það frá bróður sínum, að hann öfundi mann fyrir eigin staðfestu, heimspeki og gildi segir manni ansi margt, sér í lagi vegna þess að ef það er einhver í þessum heimi sem "gives it to me straight", þá er það bróðir minn. (Hann hefur ALDREI getað logið að mér!!) Ég vona bara að hann haldi áfram sinni staðfestu, að vera ávallt sá sem hann er, þó ekki ýkja það ;o) og að ekkert trufli hann í því að skapa sér það líf sem hann óskar eftir.

Að síðustu að þessu sinni óska ég þess fyrir sjálfa mig og okkur Guðmund að okkur takist það sem við höfum planað fyrir þetta ár og að það eigi eftir að færa okkur gæfu og sem minnstu vandræði!!
Lifið heil

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home