MamaMia

þriðjudagur, mars 30, 2004

Mér finnst það nú svolítið fyndið að Stöð 2 ætli að gefast upp í baráttunni um fréttatímann og færa fréttatíma þeirra enn einu sinni og nú til hálfsjö, því ef ég man rétt þá var það jú Stöð 2 sem flutti fréttatímann fyrst til sjö og Ríkissjónvarpið hermdi svo eftir þeim. Þetta segir manni bara það að áhorfið er greinilega ennþá meira á fréttir Ríkissjónvarpsins en Stöðvar 2. Það breytir þó ekki því að mér finnst þetta skondið að Stöð 2 sé að "gefast svona upp". En auðvitað er þetta fremur grátleg þróun, þar sem ég tel að þetta muni enn fremur stuðla að því að tími fjölskyldunnar saman við kvöldverð er gerð útlægur með þessari "árás" sjónvarpsmiðilsins. Nú þegar er knappur tími fyrir fólk að koma heim úr vinnunni og elda kvöldverð og snæða hann í rólegheitum. Sú þróun þykir mér alls ekki jákvæð, þar sem ég tel að sameiginleg máltíð fjölskyldunnar sé góð leið til að halda fjölskyldunni saman og styrkja þau gildi og viðmið sem foreldrar eru að reyna að miðla börnum sínum.

Af öðru er það vorið sem kallar... ég get hreinlega ekki beðið eftir maí-mánuði.. þegar þessum blessaða skóla lýkur og maður getur aðeins farið að slappa af og njóta lífsins. Sumarið er þó reyndar ekki enn orðið klárt hjá Guðmundi, en hann er þó búinn að taka þá ákvörðun að ef hann fær ekki samning hjá því fyrirtæki sem hann langar mest að vinna hjá, þá ætlar hann á sjó!!! En næsti vetur er allur að skýrast. Hann er með umsóknarblöðin í Iðnskólann í Reykjavík í höndunum og sendir þau á morgun. Það verður rosa nám í þessum lokahnikk rafeindavirkjunarinnar, 25 einingar á önn, sem er nú frekar mikið. En hann hlakkar til, þó svo hann kvíði því svolítið að hann standist ekki þær námskröfur sem eru gerðar fyrir sunnan. Ég er alltaf að reyna að segja honum að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, enda hljóti VMA að gera sér far um að vita áherslurnar til að setja saman þeirra námssvið hér. Svo líka skiptir það ekki máli, hann er komin í þetta nám til að læra, og það viðmót eitt skilar honum alla vega hálfa leið!

Svo er hugur okkar nú eiginlega alltaf við húsið okkar.. teikningar komnar vel á veg og ég er farin að sjá þetta vel fyrir mér allt saman. Ég er meira að segja farin að hugsa um ýmiss smáatriði og það er bara gaman. Eina sem ég hef áhyggjur af er peningahliðin, og ég vildi að ég vissi hvert ég gæti snúið mér varðandi aðstoð. Hvernig maður eigi að fara út í svona skuldbingingar, hvað ber að varast, hvað er raunhæft og svo framvegis?? Ef þið vitið um eitthvað fyrirtæki/þjónustu eða aðila sem gætu svarað þessum spurningum (og þúsund öðrum!!), endilega látið okkur vita...

fimmtudagur, mars 25, 2004

Hmmmm... það er spurning hvað ég eigi að blogga um!!!

Ég gæti til að mynda bloggað um myndina sem ég fór á í gær, The passion of the Christ. Ég var auðvitað undirbúin fyrir það að fara á svona mynd, en það breytti því ekki að á tímabili var ég með ekka og rennblautt tissjú. Myndin var mjög beinskeytt, að því leyti að ALLT var sýnt. Ég var mjög sátt við innihald myndarinnar, fannst hún skila Kristninni vel frá sér í sögulegu samhengi. Það var aðeins eitt sem pirraði mig, og það var að talmál Rómverja (frum-ítalska eða hvað?!) var ekki þýtt. Eins veit ég ekki enn hvað mér finnst um þá djöfulmynd sem þeir sköpuðu, er hreinlega bara ekki búin að átta mig á henni alveg, en myndin verður í huga mér næstu daga og vikur, það er víst. Annars er þetta auðvitað ekkert annað en meistaraverk og Mel Gibson á heiður skilinn fyrir að spila svona djarfan leik að gera mynd um eitt af umtöluðustu atburðum sögunnar. Aðalleikarinn, sá sem leikur Jesú, skilar hlutverki sínu óaðfinnanlega og einnig fannst mér konan í hlutverki móður hans ofboðslega sterk í sínum karakter. Ég mæli hiklaust með þessari mynd, enda er þetta tímamótaverk sem ekki verður endurtekið, en ég mæli auðvitað ekki með henni fyrir viðkvæma, nema þeir geri sér fyllilega grein fyrir því að þeir eru að fara að horfa á mynd sem segir frá gömlum pyntingaraðferðum og sjúkri mannvonsku.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Hann á afmæli´í dag,
hann á afmæli´í dag.
Hann á afmæli´hann Villi,
hann á afmæli´í dag.

Hann á afmæli´í dag,
hann á afmæli´í dag.
Hann á afmæli hann afi,
hann á afmæli´í dag.


Jú jú, Villi bjáni á afmæli í dag og er víst 24 ára gamall maðurinn... verði honum að því eins og einhver sagði!! Svo er það hann Ingólfur afi minn sem er 89 ára gamall í dag... takk fyrir það.. og keyrir ennþá kallinn.. geri aðrir betur!!

You Should Date An Italian!


You love for old fashioned romance, with an old fashioned guy

An Italian guy is the perfect candidate to be your prince charming

If your head doesn't spin enough, just down another espresso with him

Invest in a motorcycle helmet - and some carb blocker for all that pasta!
Which Foreign Guy Should You Date? Take This Quiz :-)
Find the Love of Your Life
(and More Love Quizzes) at Your New Romance.Kemur þetta einhverjum á óvart??!!

fimmtudagur, mars 18, 2004

Ok.. nú ætla ég aðeins að blogga um karlmenn, þar sem það hafa nú löngum verið eitt af mínum "áhugamálum"!!! Sko, eins og flestir vita þá er ég argasti sjónvarpssjúklingur og horfi m.a. á Nágranna. Ég horfði sem sagt á þáttinn núna í hádeginu, og þá tóku þau Max og Steph loksins saman. Það sem ég vildi segja um það, er hvað mér fannst það órtúlega sexý móment þegar hann tók hana í fangið og kyssti hana. Hann tók eitthvað svo þétt utan um hana og brosti svo breytt á eftir. Sko, þá er það sem þessi bloggumræða snýst um: hvað gerir karlmenn sexý?!

Það sem gerir þennan Max karakter sexý að mínu mati er í fyrsta lagi hvað hann er myndarlegur og brosir fallega. En það sem gerir það að verkum að það hreinlega lekur af honum er hvað hann er svona mikill fjölskyldumaður (ábyrgur), góður og nice karakter. Mín skoðun er því sú að góðir og nice gæjar geta verið ótrúlega sexý, enda kommon, ég er trúlofuð einum slíkum ;o) Svo við höldum áfram að ræða um þessa fertugu og upp fyrir karlmenn, þá er t.d. einn maður hér á Norðurlandi sem ég myndi alls ekki treysta mér til að lenda einhvers staðar ein með inni í herbergi eða eitthvað ... því sá maður er alveg ómótstæðilega sexý. Hann hins vegar er sexý bara af því bara!!! Hann er ekkert rosa myndarlegur, reyndar vel vaxinn, en frekar grófur og svona, þið vitið, hálfgerður durgur (fann ekkert betra orð!!). Hann er sem sagt ekki sexý fyrir það að vera góður gæji, ábyrgur og nice, heldur einmitt bara fyrir útlit og hörkukarakterinn!

Það er sem sagt þannig að margir þeir sem eru svona eins og við vinkonurnar köllum "ríðilegir" sem ungir menn, halda margir hverjir því sexappíl áfram, þrátt fyrir að giftast og stofna fjölskyldu, vegna þess að persóna þeirra breytist ekki í frumþáttum. Svo verða hins vegar margir góðu gæjanna sem margar stelpur virða ekki viðlits alveg ótrúlega sexý um leið og þeir eru komnir með hring á fingur og börn. Þá er eins og þeirra skærasta ljós lýsi sem mest og gerir þá enn meira sexý en nokkurn tímann áður.

Já já... miklar pælingar í gangi um eldri menn, ólíkt því sem áður var kannski um jafnaldrana!! Já ég ætti kannski að fara að læra?!

þriðjudagur, mars 16, 2004

Hún á afmæli´í dag,
hún á afmæli´í dag.
Hún á afmæli´hún mamma mín,
hún á afmæli´í dag.


Þrefallt húrra fyrir 45 ára afmæli móður minnar... en þetta er konan sem afrekaði það að koma mér í heiminn, elska mig og annast, þrífa og elda ofan í!! Geri aðrir betur...

mánudagur, mars 15, 2004

Já, lífið í sveitinni þessa dagana er bara mjög ljúft, enda varla hægt að kvarta þegar veðrið er svona yndislegt. Við Guðmundur skruppum þó aðeins í bæinn í gær, þar sem mig langaði alveg óendanlega mikið í eitthvað sukk. Ég fór nefninlega aðeins yfir á Karólínu með nokkrum úr hópnum eftir sýningu á laugardagskvöldið, og kom því ekki heim fyrr en um klukkan 02:00! Það var því alveg tilvalin hugmynd, fannst mér alla vega, að skreppa á Crown í gær. Það höfum við skötuhjúin ekki gert síðan held ég bara fyrir ári síðan eða svo, og þetta var bara ljómandi góður kjúlli.

Ég nenni helst ekki að ræða um skólann og það má að hluta til rekja til þess að ég er enn með ágætan skólaleiða. Svo er það einnig að maður er orðin ótrúlega þreyttur á að hafa ekki aðgang að því sem maður á að hafa aðgang að, nefninlega tölvustofunni niður í Þingvallastræti, en þar eru alltaf einhverjir tímar í gangi eða námskeið og maður er aldrei látin vita fyrir fram og stundum ekki látin vita yfir höfuð. Þannig að maður er löngu hættur að treysta á að geta komist í tölvurnar í sínum eigin skóla (sko Þingvalla). Svo er það nú þessi kúrs sem á að heita heimspeki menntunnar. Ok, mér finnst heimspeki skemmtileg, en þegar maður fær aldrei sömu einkunnina fyrir nákvæmlega eins vikuleg verkefni, sem maður vinnur alltaf eins, þá finnst mér að eitthvað hljóti að vera að kennararanum. Svo frétti ég það fyrir helgi að 2 nemendur í bekknum mínum sem eru með dislexiu (lestrarörðugleika) fá einkatíma á íslensku og þurfa ekki að mæta í venjulegu tímana!!! Fyrir fólkið í mínum bekk sem er ekki vel að sér í ensku finnst mér þetta dónaskapur og mismunum á fólki. Allt í lagi að þessir nemendur fái að skila færri verkefnum og að til þeirra séu gerðar öðruvísi kröfur, en að bjóða þeim upp á að sitja tímana á íslensku og sleppa ensku tímunum, þegar það verður ekki einu sinni próf í áfanganum, finnst mér fráleitt.

Annars hef ég nú bara mest gaman af því að vera með honum Guðmundi mínum þessa dagana, því ég hef takmarkaðan áhuga á skólanum og öllu því sem tengist honum. Við höfum haft það voða gott undanfarið, enda mikil gleði yfir því að vera búin að endurheimta kvöldin eftir margra vikna kvöldæfingar í Kátu ekkjunni (en sýningar ganga einmitt rosa vel). Við létum eins og fífl í gær, sem endaði með því að við fórum í áskorandakeppni. Það var mjög fyndið allt saman og við stóðumst þetta bæði, ég þá áskorun sem ég fékk og hann þá áskorun sem hann fékk... snilld ;o)

Jæja, ég er orðin svo hungruð, heyri í ykkur seinna, ég er farin að fá mér eitthvað að borða!!!

þriðjudagur, mars 09, 2004

Þá er æfingatímabilið afstaðið, frumsýning og 2. sýning. Frumsýningin tókst í alla staði mjög vel og við vorum ofsalega ánægð með okkur. Salurinn var frábær, það var mikið hlegið og klappað og allir mjög ánægðir með sýninguna. Eftir sýningu var aðeins skálað og etið (mjög góðar snittur frá Cafe Karólínu) en ákveðið að halda almennilega upp á þetta allt saman á laugardagskvöldið, eftir 2. sýningu. Það partý var í Landsbankasalnum, en þangað hef ég aldrei áður komið. Það var mikið fjör á okkur, mikið sungið, dansað og hlegið.

Nokkuð víst er að ég hef lengi verið að vinna á vararafhlöðunum og ég hef því notað síðustu daga til að sofa og slappa af, enda verðskuldað!! Ég finn að ég er að koma til, en geri mér alveg grein fyrir því að vikan mun vera svolítið skrítin. Við tekur svo verkefnavinna og lokaritgerð, þar sem ég verð að fara að skirpa í lófana og skrifa eitthvað!!

Annars hef ég það bara fínt, og verð að segja að ég er farin að hlakka til páskanna, en Villi bróðir kemur heim í viku, og svo ætla Ella Magga & Egill að renna norður líka, og eftir því sem ég best veit, koma Gurra og co og foreldrar Gurru, Lalli og Ruth (Lalli er föðurbróðir minn), þannig að það verður heilmikið stuð hérna um páskana.

þriðjudagur, mars 02, 2004

VINSAMLEGAST ATHUGIÐ!!! ER EKKI EINHVER SEM Á SVONA FJAÐRIR (FJAÐRATREFIL) EINS OG VORU SVO VINSÆLAR HÉRNA FYRIR EINHVERJUM ÁRUM. EF EINHVER Á OG GÆTI HUGSAÐ SÉR AÐ LÁNA MÉR ÞÆR, ENDILEGA HAFIÐ SAMBAND!!!

Það er auðvitað allt á fullu í sambandi við Kátu ekkjuna, enda frumsýnt á föstudagskvöldið og fólk orðið misupplagt á æfingum, stressið að láta finna fyrir sér... en allt er þetta að koma og ég held að við endum bara með ágætis sýningu.