MamaMia

fimmtudagur, desember 30, 2004

Ég náttúrulega gleymdi að segja frá því að ég er byrjuð við að fikta í heimasíðugerð fyrir Járnbrá Karítas inni á barnaland.is en eins og ég sagði þá er ég að fikta og mun örugglega margt breyta síðunni!!! En þar sem bloggerinn er í einhverju fokki verð ég að skrifa inn linkinn, get ekki sett hann inn!!! allavega... www.barnaland.is/barn/22767

Já, þetta hafa svo sannarlega verið yndisleg jól. Við Guðmundur vorum heima í Gröf með stelpuna á aðfangadag og það var alveg ótrúlega yndislegt. Skottan fékk þvílíku pakkana og í þeim voru meðal annars kjóll frá París, en Villi og Oddný keyptu hann þar á ferð sinni þar í haust. Hún fékk líka fleiri falleg föt og einnig dót í baðið og bangsa. Svo var nú komið að stóra deginum, en á annan í jólum var skírn í Kaupangskirkju. Ég var nú alveg að farast úr stressi kvöldinu áður því ekki leit nú veðrið vel út og óttinn um að tengdafjölskyldan kæmist ekki og skírnarkjólinn alveg í hámarki. Ég var svo engu skárri í stressinu í hádeginu á skírnardaginn þar sem ófært var út eftir og náðist ekki að ryðja þangað fyrr en rétt fyrir hádegi. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég hef sjaldan orðið svona stressuð og finnst alveg fáránlegt núna eftir á að hafa látið stressið fara svona með mig!! En að skírninni sjálfri, presturinn hann Hannes Blandon var alveg frábær og náði að róa mig fljótt niður. Stelpan var svo auðvitað yndisleg og spjallaði bara við Blandoninn um það leyti sem hann var að skíra hana. Hún fékk svo nöfnin Járnbrá Karítas og vissulega urðu sumir hissa og jafnvel sjokkeraðir c",) Allt gekk vel og Járnbrá sofnaði svo bara í seinni hluta messunnar. Veislan var svo heima í Gröf og heppnaðist alveg frábærlega, enda hvað annað hægt þegar Sigurlaug húsmóðir í Gröf er annars vegar og hjálparhellan hún Ella.... Þetta var í einu orði alveg yndislegur dagur og oft sem tárin voru ekki langt undan, sérstaklega þegar mamma söng fyrir ömmustelpuna sína.

Við erum í Ólafsfirði núna og verðum fram yfir áramót, verst bara hvað veðurspá er leiðinleg. Hins vegar er það ekki allt, heldur að vera með fjölskyldunni og það er alveg frábært, enda nóg fyrir afa og ömmu að gera, með barnabörnin sín 3, Járnbrá Karítas, Þórð Hólm og Ragnheiði Köru. Við óskum öllum vinum og vandamönnum gleðilegs árs og friðar á nýju ári 2005.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Gvöð hvað ég á sæta og duglega stelpu. Hún var í 3 mánaða skoðun í morgun og þurfti að fá sína fyrstu sprautu. Hún var í svaka stuði, hjalaði bara og hjalaði við lækninn og kipptist aðeins við þegar stungan kom en ekkert meir, ekki eitt píbb, ekki bofs.... Ég var ekkert smá stolt af henni krúttu minni.

Mér heyrist á sumum að þeir séu orðnir þreyttir á að bíða eftir skírninni, þ.e. að fá að vita nafnið á stelpunni, en kommon, þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Hins vegar er ég afar sorgmædd yfir því hvað fáir af mínum vinum geta komist í skírnina. Svo virðist sem að mínar elstu og bestu vinkonur, Sara og Jósa, geti ekki komist og ég er mjög leið yfir því... fjandans vinna, því jólin eru svo óhagstæð vinnulega séð. Af hverju er ekki bara öllu lokað fram að 4ða í jólum eða svo, þetta er ómannúðlegt að láta fólk hanga svona í vinnunni í staðin fyrir að vera heima með fjölskyldunni sinni.

sunnudagur, desember 05, 2004

Ég er hamingjusöm

og ég get sagt það í votta viðurvist. Við erum komin norður, komum á föstudagskvöldið og ferðin norður gekk bara ágætlega. Stelpan svaf sem betur fer mest alla leiðina en lét okkur svosum alveg heyra það að hún var ekkert súper ánægð með að vera föst í einhverjum bílstól fyrstu kílómetrana og af og til á leiðinni, en svona er það bara, hún verður bara að vera örugg í bílnum og ósátt stundum!!! En aftur að hamingjunni... ég upplifði hamingju-móment í dag þegar við Guðmundur vorum að föndra við að setja jólaseríur á húsið, stelpan sofandi úti í vagni, ilm lagði frá smákökubakstri úr eldhúsinu í bland við yndislega sveitailminn og veðrið og kyrrðin alger sæla. Ég dró djúpt inn andann og sagði við Guðmund að ég elskaði hann og dóttur og okkar og að ég væri innilega hamingjusöm. Ég hef ekki oft sagt það upphátt að ég sé hamingjusöm þó að ég hafi yfirleitt verið það síðast liðin ár. Hefur sennilega þótt það of væmið eða eitthvað...

Jólakortin er svo að segja tilbúin, bara eftir að prenta þau út... ég er mjög ánægð með þau. Jólaseríum fjölgar hér í gluggum dag frá degi og mamma tekur hamskiptum í eldhúsinu í bakstrinum. Við erum svo að skipuleggja skírnina þess á milli og gengur bara vel. Lífið er gott.